Bítlaæði - Bieberæði

Í gamla daga missti ungt fólk bæði þvag og saur yfir Bítlunum og annarri tónlist þess tíma. Bítlarnir voru vissulega bylting í tónlist og ekkert skrýtið kannski að Bítlaæði hafi gripið um sig. Á þeim tíma var tónlist líka mun stærri þáttur í lífi ungs fólks en hún er í dag. Eldra fólkið hneykslaðist og skildi ekki þessa tónlist og þá persónudýrkun sem fylgdi æðinu. Það hristi bara hausinn. Þetta gerðist auðvitað líka þegar Elvis steig fram á sjónarsviðið nokkrum árum áður. Síðan þá hefur það gerst aftur og aftur að unga fólkið heillast og eldra fólkið hneykslast.

Það nýjasta er auðvitað Bieber æðið sem er ekkert annað en Bítlaæði dagsins í dag. Ég er alls ekki að líkja saman tónlist þessara tveggja. Bieberinn myndi ekki þola þá samlíkingu í mínum huga. En það skiptir ekki máli hvað mér eða öðrum miðaldra og eldri borgurum finnst. Krökkunum er skítsama. Þeim finnst Bítlarnir sjálfsagt hundleiðinlegir og skilja ekkert hvernig fólk getur hlustað á þetta. Fyrir þeim er Bieber málið.

Persónudýrkunin er sú sama. Æðið er það sama. Og viðbrögð eldra fólksins eru þau sömu. Þó svo að sumt af þessu eldra fólki hafi sjálft einhvern tíma tekið þátt í einhverju álíka æði skilur það ekkert í unga fólkinu. Aðalástæðan er, ef ég er að lesa þetta rétt, að tónlistin þykir ekki nógu góð. En hver á að dæma það ? Ég get alveg gert það en ég ætla ekki að gera það. Ég er ekki í markhópnum og mín skoðun skiptir Justin Bieber og aðdáendur hans engu máli.

Það sem mér finnst jákvætt við að krakkarnir hlusti á Bieber er að þau eru þá allavega að hlusta á tónlist. Það er svo margt sem glepur huga fólks í dag og tónlist er ekki eins stór þáttur og hún var. Í dag hafa krakkarnir sjónvarp, tölvur, síma, Playstation o.fl. með öllu sem því fylgir. Tónlist er bara einn þáttur af mörgum og er á undanhaldi ef eitthvað er. Eigum við ekki bara að leyfa þeim að hlusta og hætta að tuða ?

Í vikunni kom Brian Wilson fyrrum forsprakki Beach Boys til landsins og og miðaldra og uppúr flykktust til að berja goðið augum. Þetta er sko tónlist í þeirra eyrum og hafa sjálfsagt margir óskað þess að blessuð börnin myndu frekar vilja sjá Wilson en Bieber. Það væri skemmtilegra og uppbyggilegra ef krakkarnir tækju þátt í æði foreldranna frekar en sínu eigin. Ég varð ekki var við að unglingar landsins væru að hneykslast á facebook yfir því að foreldrar þeirra, ömmur og afar væru að fara í Hörpu til að sjá og heyra geðveikan gamlan kall sem dópaði frá sér allt vit flytja lög af yfir fjörutíu ára gamalli plötu. Þeim er sjálfsagt slétt sama og hafa ekki sömu áhyggjur af því hvað þeir sem eldri eru hlusta á.

Margir hafa kannski áhyggjur af æsku þessa lands og hvert hún er að stefna. Að hlusta á Justin Bieber er ekki það versta held ég. Svo mun þetta eldast af þeim og hver veit nema þau fari að hlusta á "alvöru" tónlist seinna meir :)

Ég er að kenna krökkum í fimmta og sjötta bekk tónmennt. Þar hef ég orðið var við spennuna. Ég hef leyft þeim að fara á Youtube og hlusta á goðið og dansa. Gleðin og eftirvæntingin sem skín úr andlitum þeirra er svo ósvikin og falleg að mér dettur ekki í hug að nöldra. Ég get hins vegar lofað því að í vetur fá þau að kynnast tónlist fyrri tíma. Þau munu verða látin hlusta á Elvis, Bítlana, Led Zeppelin, Sex Pistols og fleira þeim til uppfræðslu og vonandi einhverrar skemmtunar.
Ef þau verða stillt fá þau svo kannski að hlusta á Justin Bieber.



Comments

  1. Ei sammála. Fjöldaframleidd tónlist samin út frá formúlu þess sem virkar nákvæmlega í dag kveikir ekki í mér.
    Einnota tónlist.

    ReplyDelete
  2. Þessi tónlist kveikir ekki heldur í mér, enda sagði ég það aldrei kæri Unknown. En hún kveikir í yngri kynslóðinni. Er það ekki bara allt í lagi ?

    ReplyDelete
  3. Þetta eru ekki bara börnin sem hlusta á þessi ósköp,
    Ég heyrði nokkra karlmenn um fertugt vera að ræða um Bieberinn
    og heyrðist mér þeir vera að missa sig úr spenningi yfir þessum tónleikum í kvöld

    ReplyDelete

Post a Comment

Popular posts from this blog

Af hverju féll ég ?

Sjálfstraust

Íslensk tónlist - Oft ókeypis