Íslensk tónlist - Oft ókeypis

Ég er búinn að vera tónlistamaður síðan ég var unglingur. Ég hef haft tónlist að atvinnu meira og minna í fleiri ár en ég þori að nefna. Ég elska tónlist og tel það vera forréttindi að fá að starfa við það sem mér finnst skemmtilegt. Það þýðir samt ekki að ég sé til í að vinna ókeypis. Ég hef bara ekki efni á því og mér finnst það ósanngjarnt miðað við allan þann tíma sem ég hef lagt í þetta og að maður tali nú ekki um tækjakaup og annan kostnað.

Maður verður seint ríkur á því að vera tónlistamaður, og það er meira en að segja það að ætla að lifa á tónlistinni eingöngu. Það var svosem aldrei ætlun mín að gera þetta að einhverri atvinnu. Þegar ég var að byrja gerði ég þetta af hugsjón og ánægju. Ég man þegar ég var í fyrstu hljómsveitinni minni, Tappa Tíkarrass, þá fengum við stundum skammir frá öðrum tónlistamönnum af því við seldum okkur of ódýrt. Við vissum bara ekki betur. Við vorum ung og óreynd og vildum bara hafa gaman. Við vorum líka endalaus í því að koma okkur á framfæri. En síðan eru liðin mörg ár. Á þessum árum hef ég spilað "égveitekkihvað" mörg gigg fyrir mismikinn pening. Stundum ekki neitt. Alltof oft fyrir ekki neitt.

Auðvitað er erfitt fyrir nýjan hljómsveit að reikna með einhverjum peningum strax í upphafi. Það kostar að ná athygli og koma tónlist sinni á framfæri. Þetta er bara eins og þegar þú lærir einhverja iðn. Þú sættir þig við lítil sem engin laun í upphafi á meðan þú ert að mennta þig og ná í reynslu. En á einhverjum tímapunkti þarf tónlistamaðurinn að segja stopp og hætta að gefa vinnu sína. Það getur verið erfitt að segja nákvæmlega hvenær það er. En því lengur og oftar sem tónlistamenn gefa vinnu sína þá eru þeir að eyðileggja fyrir sjálfum sér og öðrum.

Tökum sem dæmi tónlistarhátíðir. Það er selt inná hátíðina sjálfa en oft á tíðum gefa tónlistamennirnir vinnu sína. Af hverju ? Af því að í einhverjum tilfellum er verið að koma sér á framfæri og í öðrum tilfellum af því að þetta er bara svo ofboðslega gaman. Frábært.

Það eru reyndar ekki allar tónlistarhátíðir sem ætlast til að menn spili launalaust. Til dæmis fá menn í einhverjum tilfellum greitt fyrir að spila á Iceland Airwaves og Bræðslan greiðir sömuleiðis laun. Og þeir sem spila á Iceland Airwaves fá að auki aðgang að loftbrú Icelandair sem auðveldar útflutning og stækkun markaðar. Og það hefur sýnt sig að Iceland Airwaves hefur skilað árangri. Besta útíhátíðin borgar einnig laun og örugglega einhverjar fleiri.

Ég var einu sinni að spila á "Aldrei fór ég suður". Ég kom fram á hátíðinni sjálfri og spilaði svo með SSSÓL og Grafík á balli í Bolungavík á sunnudagskvöldinu. Í flugvélinni á leið heim eftir hátíðina var ég að spjalla við einn af þeim tónlistamönnum sem hafði verið að spila á hátíðinni. Við töluðum um hversu vel ballið okkar hafði heppnast. Þá man ég að hann sagði eitthvað á þessa leið : "Þetta er indie tónlistarhátíð og svo koma sveitaballabönd og hirða allan peninginn". Ég man ekki hverju ég svaraði, en ég hugsaði : "Þið bjóðið uppá þetta". En það er bara þannig að sumum tónlistamönnum finnst það ósmekklegt og jafnvel mannskemmandi að tala um tónlist og peninga í sömu andrá.

Ástæða þess að ég er að röfla þetta núna er sú að ég er búinn að fá nóg af þessu bulli. Það sem kveikti í mér í dag eru fréttir af tónlistamönnum sem bökkuðu út úr Keflavík Music Festival vegna samningamála. Ég hrópa húrra fyrir þessum tónlistamönnum.

Við tónlistamenn erum reyndar alveg skelfilegir þegar kemur að kjaramálum. Það er búið að kosta það sama inná tónleika og böll í mörg mörg ár. Laun fyrir stúdíóvinnu hafa staðið í stað árum saman og lækkað ef eitthvað er. Við erum fávitar þegar kemur að peningamálum.

Tónlist á aldrei að vera ókeypis segi ég og skrifa. Það á að kosta inná tónleika því fólk á að borga fyrir alla þá tónlist sem það vill hlusta á, hvort sem um er að ræða lifandi flutning, geisladisk, vinylplötu, kassettu eða niðurhal af neti. Þannig er nú bara það. Þetta er mín skoðun.

Tónlistamenn : sýnum okkur þá lágmarksvirðingu að hætta þessari vitleysu. Ef þú getur ekki rukkað fyrir tónlistina þína finndu þér þá eitthvað annað að gera. Á meðan við erum stöðugt að gefa vinnuna okkar er ekkert skrýtið að fólki finnist eðlilegt að sækja sér tónlist ókeypis á netinu. Við erum að bjóða uppá þetta.

Sorrý.... en ég er bara búinn að fá nóg.

Comments

  1. Þeir sem eru að byrja eru fegnir að fá að spila, en þegar menn eru búnir að gera þetta lengi kemur í ljós hversu mikið er verið að gera lítið úr tónlistarmönnum á þennan hátt. Mín reynsla af tónleika- og hátíðahaldi er í miklum meirihluta slæm hér á landi, hvað ég hef látið mig hafa til að koma tónlistinni til áheyrenda er óásættanlegt þegar horft er aftur. Það sem ég er að heyra af Keflavíkurhátíðinni er alls ekkert nýtt. Þeir sem halda að þessi kvörtun séu bara stjörnustælar eða eitthvað í þá áttina, hafa einfaldlega ekki lent í því að þurfa að díla við þetta aftur... og aftur.

    ReplyDelete
  2. Hef tuðað um þetta lengi sjálfur.
    Vel mælt Jakob.

    ReplyDelete
  3. Ef mig langar að halda ókeypis tónleika eða gefa ókeypis upptökur á einhverju formi án þess að fá neitt greitt fyrir það, þá er það mitt mál.
    Ef þig langar að lifa á tónlistinni þinni þá er það þitt mál.
    Þú mátt gera hluti á þínum forsendum og ég vil fá að gera hluti á mínum forsendum.


    Ef ég hef að atvinnu að slá gras og fæ greitt fyrir það, og þig langar að slá gras í þínum frístundum án greiðslu (eða fyrir miklu minni greiðslur) þá er það bara hið fínasta mál og ég get fundið mér einhverja aðra launaða vinnu ef frístundaiðja þín eða annara er farin að ógna atvinnutækifærum mínum á þessu sviði.


    Ég er samt sammála öllu hinu sem þú segir (í heildina góð grein að mínu mati, þó ég sé ósamála þessum punkti um að tónlist megi ekki vera ókeypis).
    Mér finnst ekki að tónlistarmenn eigi að vinna launalaust ef þeir vilja það ekki, eða fyrir lægri laun en þeim finnst ásættanleg, og hið besta mál að hætta við að koma fram ef það er ekki staðið við samninga.

    ReplyDelete
  4. Sæll Jakob,
    ég er að mestu leyti sammála því sem þú skrifar hér. Einhvers staðar á leiðinni gáfu tónlistarmenn þetta slæma fordæmi af sér að spila frítt. Þetta er óþægileg staðreynd og verður til þess að margir tónlistarmenn eru feimnir að tala um peninga.

    Þar sem ég er einn aðstandenda Aldrei fór ég suður þá þykir mér leitt hvernig þú hefur oftar en einu sinni sett þá hátíð í sama flokk og þær tónlistarhátíðir sem ekki greiða tónlistarmönnum en mögulega hátíðarhaldarar hafa fengið greitt (það væri ágætt að fá dæmi um þesskonar tónlistarhátíðir).

    Við höfum vissulega gefið af okkur hið slæma fordæmi að greiða ekki tónlistarmönnum fyrir sína framkomu, það gerum við ekki lengur þó. En það var ávallt sameiginlegur skilningur þar sem frítt(!) var fyrir alla gesti á hátíðina og enginn fékk neinar greiðslur. Hvorki aðstandendur né starfsmenn, hljóðmenn, ljósamenn.

    Þannig er þetta enn; það er frítt inn og aðstandendur þiggja ekki neinar greiðslur fyrir sína aðkomu og hafa aldrei gert. Mér finnst þetta breyta aðeins heildarmyndinni.

    Bestu kveðjur,
    Kristján Freyr

    ReplyDelete
  5. Blessaður Kristján. Ég hef svosem ekkert mikið verið að fjalla um þessi mál. Þessa grein skrifaði ég 2013. En hún er alveg í gildi enn. Ég held ég hafi einu sinni nefnt Aldrei fór ég suður í þessu samhengi fyrir utan þetta blogg. Kannski nefndi ég þessa hátíð af því ég hef spilað þar svo oft. Það var alls ekki ætlunin að stilla ykkur upp sem vondu köllunum. Mig minnir að á þessum tíma hafi verið nýbúin að vera einhver umræða um hvað það væri gott fyrir samfélagið á Ísafirði að hafa þessa hátíð vegna fjölgunar í bænum ég man að ég tjáði mig eitthvað um það á sínum tíma.

    Tónlist á ekki að snúast eingöngu um peninga. Ný bönd þurfa að sig og þurfa vettvang til að koma sér á framfæri. En á einhverjumtíma punkti verða menn svo að hætta að gefa vinnuna sína.

    Ég bið þigbafsökunar ef þessi skrif mín hafa lagst illa í þig og þitt fólk. Ég veit að þið eruð ekki að þessumtil að græða peninga.

    Göðar stundir
    Jakob

    ReplyDelete

Post a Comment

Popular posts from this blog

Af hverju féll ég ?

Sjálfstraust