Sjálfstraust

Þegar ég var krakki og langt fram á unglingsár leið mér oft þannig að mér fannst ég útundan og minnimáttar. Það var alveg sama hvort ég var í skólanum eða fjölskylduboðum mér fannst ég sjaldan velkominn. Ekki það að það hefi verið sagt við mig berum orðum, kannski eitthvað sem ég skynjaði í framkomu annarra. Sennilega var þetta þó mest í hausnum á mér. Jú það var reyndar einu sinni sagt við mig svo ég muni. Þá var ég í gaggó og það voru frímínútur. Ég gekk að hóp bekkjarfélaga og einn þeirra sagði við mig : "Hvað ert þú að gera hér ?". Ég hundskaðist í burtu.

Ég átti ekki marga vini í æsku. Nánar tiltekið tvo. Einn í skólanum og einn í blokkinni þar sem ég bjó. En það var fullt af krökkum í blokkinni þannig að maður gat nú stundum leikið við þau. Og svo lék ég við systur mína stundum. Oft var ég nú bara einn að dunda mér og dreyma dagdrauma um breytt ástand.

Þessi líðan mín á æskuárum er sennilega ein aðalástæðan fyrir því starfi sem ég seinna
valdi mér. Það er að segja að verða tónlistamaður. Ég hafði mikinn áhuga á tónlist strax í æsku og ætlaði að verða Paul McCartney þegar ég yrði stór. Ég sagði það við mömmu. Ég hafði reyndar  líka mikinn áhuga á fótbolta en gat ekkert. Ég var ömurlegur í íþróttum. Þannig að atvinnumannaferill í fótbolta kom aldrei til greina. En ég þráði athygli og viðurkenningu. Þar kom tónlistin til sögunnar.

Ég fann það strax á síðastra vetri mínum í grunnskóla að þetta fór aðeins að breytast. Þá var ég byrjaður að spila og spilaði stundum í félagsmiðstöð hverfisins og á skólaböllum. Tónlistarferillinn fór vel af stað. Fyrsta alvöru bandið sem ég var í, Tappi Tíkarrass, fékk mikla og jákvæða athygli og seinna átti ég eftir að spila með Bubba Morthens í Das Kapital, síðan Grafík, MX-21 og Síðan skein sól og mörgum fleirum. Þarna var ég búinn að finna mig. Smám saman varð til nýr karakter ef svo má segja. Ég sagði eiginlega dáldið skilið við aumingja Jakob og gerðist bassaleikarinn Jakob. Mér fannst ég eiginlega bara næstum því dáldið töff. En auðvitað var stutt í aumingjann. Bassabúningurinn var hvorki vatns né vindheldur. Hann var bara svona rétt til að sýnast og auðvitað til að geta sinnt þessari ástríðu minni, tónlistinni. Það gerði ég af heilum hug. Ég passaði mig að vera alltaf í karakter. Sama hvar ég kom talaði ég bara um sjálfan mig og hvað ég væri að gera. Ég sýndi öðru fólki engan áhuga. Ég var búinn að búa mér til þá mynd af fólki að það væri ekki þess virði að eyða púðri í það og fólk myndi hvort sem er ekki hafa áhuga á mér nema af því ég vær tónlistamaður.  Fyrir utan tónlistina væri ég ekki neitt. Það var auðvitað ranghugmynd ( vona ég ). Mér leið ekki vel innan um fólk nema ég væri í karakter. En það var ekki hægt endalaust. Ég vildi innst inni falla í kramið hjá fólki sem manneskja. Ekki bara bassaleikari. Ég komst líka að því að það þótti ekkert öllum sá gaur neitt svaka skemmtilegur eða merkilegur. Svo kannski með auknum þroska áttaði ég mig á því að maður fer ekki í gegnum lífið á einhverjum ímynduðum töffaraskap. Áfengismeðferðir og AA hjálpuðu mér líka að átta mig á þessu. ( Ég gæti nú skrifað heila bók um sjálfstraustið sem ég hafði þegar ég var fullur, en það er önnur saga )

Ég átti annað vopn í erminni því ég var staðráðinn í því að fólki skyldi líka við mig. Það átti öllum að líka við mig. Þarna kom meðvirkni til sögunnar. Ég fór að passa mig að vera alltaf sammála síðasta ræðumanni og segja já og amen við allt og alla. Ekkert sérsaklega sniðugt. Það felst nefnilega ákveðinn óheiðarleiki í þessu og þessu fylgir ákveðin vanlíðan. En þetta var ekki eitthvað sem ég ákvað meðvitað. Þetta bara gerðist. Þann djöful er ég enn að díla við. Þessi tilfinning að vera minnimáttar og ekki eins góður og aðrir hefur nefnilega ekki alveg horfið. Þetta hefur drattast með mér í gegnum lífið, en hefur þó eitthvað lagast. En ég er orðinn drulluþreyttur á þessu. Ég er orðinn 51 árs og veit í raun ekkert hver ég er eða hvaða skoðanir ég hef. Ég reyni bara að vera sá sem ég held að aðrir vilji að ég sé. Glatað. Ég hef reyndar stundum gert það að gamni mínu að henda inn statusum á facebook sem ég veit að að einhverjir munu vera ósammála mér. Ég gerði það líka þegar ég bloggaði fyrir nokkrum árum. Mér finnst það alltaf óþægilegt ef einhver er ósammála mér og stundum hendi ég þessum statusum út ef viðbrögðin eru neikvæð.

Ég veit ekkert af hverju ég varð svona. Er þetta meðfætt eða áunnið ? Það skiptir kannski ekki máli. Ég held að aðalmálið sé að viðurkenna veikleika sinn. Það er oft fyrsta skrefið til að laga hlutina.

Ég er ekki að skrifa þetta til að kenna einhverjum um eða láta vorkenna mér. Mig langar bara að létta þessu af mér.  Ég er nokkuð viss um að það eru margir sem hugsa svipað og ég. Það er önnur ástæða til að skrifa um þetta opinberlega. Alltaf gott að vita að maður er ekki einn þannig að ef þú sem ert að lesa þetta kannast við eitthvað af þessu þá segi ég nú bara :"Velkominn í hópinn".

Nú annars er ég bara hress :)

Comments

  1. Mjög fínn pistill. Mjög fínn.
    - - og sumarið sem ég vann með þér í Ísaga vissi ég ekkert um neinn tónlistarferil og kunni mjög vel við þig - eiginlega fyrsta andlitið sem kemur í minninguna þegar ég rifja það upp.

    ReplyDelete
  2. microtouch titanium trim reviews and best bets - TITIA RACING
    MicroTouch titanium hammer titanium camillus titanium knife trim snow peak titanium flask reviews, list of top recommended brands titanium rings and contact information for MicroTouch titanium ore T.

    ReplyDelete

Post a Comment

Popular posts from this blog

Af hverju féll ég ?

Íslensk tónlist - Oft ókeypis